Jónína hlaut fyrstu menntun sína í píanóleik við Tónlistarskóla Borgarfjarðar, en útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1990 með burtfarar-og kennarapróf.  Aðalkennari hennar var Anna Þorgrímsdóttir.

Jónína stundaði framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Bergen frá 1991-1995 og lauk þar lokaprófi í píanóleik og kammermúsik með söng sem aukafag.  Aðalkennari hennar þar var Jiri Hlinka.

Hún lauk auk þess framhaldsprófi í söng vorið 2009.

Hún starfar nú sem kennari og deildarstjóri píanódeildar í Tónlistarskóla Borgarfjarðar auk þess að sinna meðleik við fiðlu- og söngdeild skólans.

Var meðleikari hjá Samkór Mýramanna 1997 og Karlakórnum Lóuþrælum 1999-2000

Stjórnaði Samkór Mýramanna frá 1997 til 2005 og gaf kórinn m.a. út geisladisk árið 2005.

Jónína lék ásamt Hannesi Þ. Guðrúnarsyni gítarleikara íslenska og norska tónlist á tónleikum í Bergen, Gjövik, Oslo og Kaupmannahöfn, lýðveldishátíðarárið 1994.

Hefur komið fram í norska sjónvarpinu í tengslum við Íslandskynningu í Bergen, þar sem hún hlaut einnig styrk frá “Fondet til fremje av nordisk kulturliv, samfunnsliv og næringsliv for islandsk og norsk ungdom.”

Hún hefur leikið á  tónleikum í Reykholti og sumartónleikum í Stykkishólmi ásamt Dagrúnu Hjartardóttur söngkonu árið 1997 og tónleikum Tónlistarfélags Borgarfjarðar haustið 2003 ásamt Zsuzsönnu Budai píanóleikara, einnig sumarið 2008 á tónleikum í Sigurjónssafni, Hólum, Bifröst og Gljúfrasteini ásamt Guðrúnu Ingimars sópransöngkonu.

Er listrænn stjórnandi IsNord tónlistarhátíðarinnar í Borgarnesi, sem haldin var í fyrsta skipti 2005, og hefur komið þar fram með m.a. Gunnari Guðbjörnssyni, Bergþóri Pálssyni, Guðrúnu Ingimarsdóttur, Theodóru Þorsteinsdóttur, Dagrúnu Hjartardóttur og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.