Gissur Páll Gissurarson hóf nám við Söngskólann í Reykjavík veturinn 1997 undir handleiðslu Magnúsar Jónssonar. Hann flutti til Ítalíu veturinn 2001 og hóf nám við Conservatorio G.B Martini í Bologna. Að loknu námi vorið 2005 fór Gissur Páll að sækja einkatíma hjá Kristjáni Jóhannssyni. Gissur Páll hefur sungið við ýmis tækifæri á Íslandi. Frumraun hans á sviði var þegar hann fór með titilhlutverkið í Oliver Twist, þá aðeins ellefu ára. Eftir að hefðbundið söngnám hófst söng hann í Kór íslensku óperunar og kom fram sem einsöngvari við ýmis tilefni.

Sumarið 2003 steig Gissur Páll sín fyrstu skref á ítölsku óperusviði sem Ruiz í óperunni Il Trovatore e. G. Verdi, sem sett var upp í Ravenna og leikstýrt af Cristina Mazzavillani Muti. Veturinn 2004 tók Gissur Páll þátt í uppfærslu á Così fan tutte, e. W. A. Mozart, undir stjórn Claudio Abbado sem sýnd var í Ferrara, Reggio Emilia og Modena. Sumarið 2005 söng hann Danilo í Kátu Ekkjunni e. Franz Lehár í útileikhúsi við Gardavatnið á Ítalíu. Haustið 2005 hélt Gissur Páll til Japan þar sem hann kom fram alls 11 sinnum fyrir hönd Íslands á EXPO sýningunni í Nagoya og var áætlaður gestafjöldi um 100.000 manns. Gissur Páll tók þátt í söngkeppninni Flaviano Labò í maí 2006. Til leiks voru skráðir 123 keppendur og hafnaði hann í 3 sæti. Haustið 2006 hélt Gissur sína fyrstu einsöngstónleika á Íslandi í Salnum í Kópavogi við góðar undirtektir. Að tónleikunum loknum hélt hann á ný til Ítalíu og tók þátt í söngkepni í Brescia og hreppti þar tvenn verðlaun. Gissur Páll var einsöngvari á jólatónleikum Karlakórs Reykjavíkur fyrir jólin 2006 og sumarið 2007 söng hann í uppfærlsu óperuhússins í Heidelberg á Rakaranum frá Sevilla. Gissur Páll söng við kynningu TÍBRÁ, tónleikaraðar Salarins þar sem hann tók á móti viðurkenningu úr styrktarsjóði Önnu Karólínu Nordal. Gissur Páll tók þátt í uppfærlsu á Werther e. Massenet og Les Mammelles de Tiresias e. Poulenc á Sardiníu síðastliðið haust. Um jólin 2007 söng Gissur Páll á fernum jólatónleikum Mótettukórs Hallgrímskirkju. Hann tók einnig þátt í flutningi á Sálumessu Verdis þann 5. apríl 2008 í Hallgrímskirkju. Gissur Páll hefur sungið Ástardrykkinn e. Donizetti haustið 2009 og hefur ný lokið sýningum á einróma lofaðri uppfærslu Íslendsku óperunar á La bohème.