Karlakórinn Söngbræður var stofnaður í uppsveitum Borgarfjarðar 1978 og fékk fljótlega nafnið Söngbræður til að votta sönghópnum Bræðurnir virðingu sína, en þeir störfuði í Borgarfirði á fyrrihluta tuttugustu aldar. Fyrsti stjórnandi Söngbræðra var Sigurður Guðmundsson, bóndi á Kirkjubóli í Hvítársíðu. Kórfélagar voru fyrst í stað aðallega úr uppsveitum Borgarfjarðar, en nú eru söngmenn úr öllum Borgarfirði, sunnan Skarðsheiðar og vestur í Hnappadal, einnig eru söngmenn úr Dölum og norðan af Ströndum. Kórinn hefur gefið út einn hljómdisk "Vorvindar" en þá var stjórnandi hans Jacek Tosik-Warszawiak pólskur píanóleikari sem starfaði með kórnum í nokkur ár. Kórinn hefur haldið tónleika vítt um  land, nú síðast í Vestmannaeyjum og Hvolsvelli. Tvisvar sinnum hefur kórinn farið í söngferðir á erlenda grund, en þá var farið annars vegar til Írlands og hins vegar til Pólands. Kórinn flytur létta tónlist bæði innlenda og erlenda. Stjórnandi kórsins er Viðar Guðmundsson, en hann er ættaður úr Borgarfirði, en býr nú með sauðfé á Ströndum, en hann er organisti, píanóleikari og tónlistarkennari. Undirleikari er Stefán Steinar Jónsson.