Voces Thules
Sönghópurinn Voces Thules var stofnaður 1991 og hefur náð að skipa sér sess sem einn helsti tónlistarhópur á Íslandi á sínu sviði.
Í fyrstu einbeittu Voces Thules sér að flutningi á enskum og frönskum fjölradda söngvum frá 14. -16. öld, auk þess sem hópurinn frumflutti tónlist eftir nokkur íslensk tónskáld. Félagar úr hópnum hófu síðan fljótlega að skoða íslenska söngarfinn, fyrst út frá safni sr. Bjarna Þorsteinssonar og síðan beint úr handritum, og síðan 1993 hefur Voces Thules verið leiðandi afl í rannsóknum og flutningi á íslenskri tónlistarhefð miðalda.
Viðamesta verkefni hópsins til þessa er heildarflutningur, hljóðritun og útgáfa á “Þorlákstíðum”, einu merkasta af íslenskum tónlistarhandritum.
Hópurinn hefur komið fram á ótal þingum og ráðstefnum tileinkuðum fornum tónlistarhandritum og sungið úr Þorlákstíðum, Nikulásartíðum, Hallvarðstíðum, Magnúsartíðum og ýmsum öðrum miðaldahandritum.
Á meðan vinnan við Þorlákstíðir fór fram varð aðalviðfangsefni hópsins smám saman íslensk miðaldatónlist. Þar hafa Voces Thules nýtt sér þjóðlög sem talin eru fornnorræn og lagað þau að öðrum textum. Í tengslum við þessa áherslu á miðaldir hefur hópurinn komið sér upp góðu safni miðaldahljóðfæra.
“Sék eld of þér”, geisladiskur ásamt veglegum bæklingi á þremur tungumálum, kom út í febrúar 2009. Diskurinn innheldur tónlist sem Voces Thules, ásamt Arngeiri Haukssyni, settu við draumkvæði úr Sturlungu en sagan hermir að sögupersónur hafi dreymt fyrir Örlygsstaðabardaga hinn 21. ágúst 1238.
Voces Thules hafa haldið tónleika og tekið þátt í tónlistarhátíðum víða um heim, svo sem í Japan, Hollandi, Noregi og Svíþjóð.
Hér á landi hefur hópurinn oftsinnis haldið tónleika, t.d. á Listahátíð í Reykjavík, á Sumartónleikum í Skálholtskirkju og með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska Dansflokknum og CAPUT. Voces Thules hlaut starfssamning við Reykjavíkurborg árið 2006.
Hópurinn var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs sem flytjendur ársins 2008.