ÁSTRÍÐUR ALDA SIGURÐARDÓTTIR lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum
í Reykjavík árið 1999 undir handleiðslu Önnu Þorgrímsdóttur. Á árunum
2000-2003 stundaði hún nám hjá Reiko Neriki við Indiana University -
Jacobs School of Music í Bloomington þar sem hún lauk Artist Diploma með
hæstu einkunn.
Ástríður hefur sótt fjöldann allan af námskeiðum, og tímum í píanóleik
og kammertónlist hjá listamönnum á borð við Geörgy Sebök, Ludwig
Hoffmann, Janos Starker, Jürgen Schröder og Olaf Dressler.
Ástríður hefur komið víða fram á tónleikum, ýmist sem einleikari eða með
öðrum tónlistarmönnum. Þá hefur hún komið fram sem einleikari með
Internationales Jugendsinfonie-orchester Elbe-Weser í Þýskalandi, með
Sinfóníuhljómsveit Íslands og með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna.
Ástríður er meðlimur í Elektra Ensemble sem var m.a. tónlistarhópur
Reykjavíkurborgar 2009 og tangósveitinni Fimm í tangó sem flytur finnska
og íslenska tangótónlist.
Á síðasta ári gaf Ástríður út sólóplötuna CHOPIN sem inniheldur fjórar
ballöður tónskáldsins auk sónötunnar í b-moll. Einnig hafa komið út
geislaplöturnar FIMM Í TANGÓ og ALDARBLIK með henni og söngvurunum Eyjólfi Eyjólfsyni og Ágústi Ólafssyni.