Þátttakendur á IsNord 2007

 

 

Tónskáld á IsNord 2007

  • Kjartan Ragnarsson
  • Emil Thoroddsen
  • Sigvaldi Kaldalóns
  • Páll Íslólfsson
  • Jón Múli/Jónas Árnasynir
  • Atli Heimir Sveinsson
  • Edward Grieg
  • Karl O. Runólfsson
  • Ýmsir norrænir höfundar úr fjárlögunum 

 

 


Styrktaraðilar Isnord 2007 eru:

 


Sparisjóður Mýrasýslu

Menningarráð Vesturlands

Menningarsjóður Borgarbyggðar

Tónlistarsjóður ríkisins

Kaupþing

Skorradalshreppur

Fjölritunar- og útgáfuþjónustan

Hótel Hamar

 

 

Hér fyrir neðan er að finna yfirlit í stafrófsröð yfir feril þáttakenda

 

Bergþór Pálsson baritón stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Indiana University í Bloomington þar sem hann lauk B.M.- og mastersnámi. Árið 1996 lauk hann leiklistarnámi frá Drama Studio London.
Að loknu námi starfaði Bergþór um nokkurra ára skeið í Þýskalandi, en síðan 1991 hefur hann að mestu starfað á Íslandi. Af ótal óperuhlutverkum hans má nefna t.d. titilhlutverkið í Evgeni Onégin eftir Tchaikovsky titilhlutverkið í Don Giovanni, Almavíva greifa í Brúðkaupi Fígarós og Papagenó í Töfraflautunni eftir Mozart, Malatesta í Don Pasquale og Enrico í Lucìa di Lammermoor eftir Donizetti, Germont í La Traviata eftir Verdi, Sharpless í Madama Butterfly og Marcello í La Bohème eftir Puccini.
Bergþór hefur haldið fjölda ljóðatónleika, sungið einsöng með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur, einnig einsöngshlutverk í kórverkum, svo sem í Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratóríu Bachs, Sköpuninni og Árstíðunum eftir Haydn, Sálumessu Mozarts,Messíasi eftir Händel og Elía eftir Mendelssohn. 

 

Bergþór hefur tekið þátt í frumflutningi á verkum eftir íslensk tónskáld. Af þeim má nefna óperurnar Galdra-Loft eftir Jón Ásgeirsson, Óhræsið eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Kalla og sælgætisgerðina eftir Hjálmar Ragnarsson, hljómsveitarverkið Tímann og vatnið eftir Atla Heimi Sveinsson og fjölmörg önnur verk af ýmsu tagi.

 

 

Guðrún Ingimarsdóttir sópran stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík hjá Elínu Ósk Óskarsdóttur og lauk námi þaðan árið 1992. Næstu tvö árin var Guðrún í söngnámi í London. Árið 1995 hóf hún nám í einsöngvaradeild Tónlistarháskólans í Stuttgart hjá prófessor Sylviu Geszty og lauk því árið 1998.

Guðrún hefur tekið þátt í fjölda óperuuppfærslna í Bretlandi og Þýskalandi. Meðal hlutverka má nefna Romildu í Xerxes eftir Händel, Títaníu í Fairy Queen eftir Purcell, Despínu í Cosi fan tutte, Blondchen í Brottnáminu úr Kvennabúrinu eftir Mozart, Adele í Leðurblökunni eftir Strauss og Grétu í Hans og Grétu eftir Humperdinck.

 

Guðrún hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum í Bretlandi, Ítalíu og Þýskalandi, m.a. með óperuhljómsveitinni í München, og hún kemur reglulega fram með Johann Strauss hljómsveitinni í Wiesbaden. Hún hefur einnig sungið með Fílharmóníusveitinni í Prag og útvarpshljómsveitinni í Kattowitz í Póllandi. Af kirkjulegum verkum sem Guðrún hefur sungið má nefna óratóríur og kantötur eftir Bach, Sköpunina eftir Haydn, Paulus eftir Mendelssohn, C-moll messu Mozarts og verk efir Arvo Pärt. Guðrún hefur sótt allmörg söngnámskeið, t.d. á vegum leikhúsakademíunnar í München og námskeið hjá Siegfried Lorenz, Robin Bowman og Elly Ameling. Árið 1996 vann Guðrún til verðlauna í árlegri alþjóðlegri söngkeppni, sem kennd er við Eriku Köth.

 

 

Halldóra Björk er fædd 1974.  Lærði á píanó við Tónlistarskóla Borgarfjarðar árin 1986-1990.    1995 – 1996 stundaði hún söngnám við Söngskólann í Reykjavík undir handleiðslu Sigrúnar Andrésdóttur. Árið 1996 hóf hún söngnám við Tónlistarskóla Borgarfjarðar hjá Dagrúnu Hjartardóttur og lauk þaðan námi með hæstu einkunn vorið 2001.  Halldóra hélt síðan til Ítalíu þar sem hún nam söng hjá  Franco Gitti í Brecia veturinn 2001 – 2002.  Halldóra Björk hefur sótt ýmis námskeið,masterklassa og einkatíma hjá m.a. Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Mariu Teresu Uribe, Tenu Palmer og Paul Farrington. Halldóra Björk hefur víða komið fram sem einsöngvari, og einnig hefur hún sungið í Kammerkór Vesturlands frá stofnun hans.

 


Hljómskálakvintettinnvar stofnaður á vorönn 1976 af þáverandi nemendum Tónlistarskólans í Reykjavík. Kennir málmblásarakvintettinn sig við Hljómskálann við Tjörnina í Reykjavík, en þar fengu nemendurnir inni með fyrstu æfingar sínar og hafa átt þar athvarf síðan.
Hljómskálakvintettinn hefur mjög komið við sögu Reykjavíkur á hátíðarstundum borgarinnar undanfarinn aldarfjórðung en til gamans má nefna leik hópsins við lagningu hornsteins og vígslu Borgarleikhússins, lagningu hornsteins og vígslu Ráðhúss Reykjavíkur, vígslu Perlunnar og 100 ára afmælishátíð Leikfélags Reykjavíkur svo aðeins örfá dæmi séu tekin.
Hljómskálakvintettinn blés í lúðra sína úr vinnupöllum Hallgrímskirkju til hljóðprufu fyrir gesti og gangandi við reisugildi kirkjunnar er hún varð fokheld. Þá hefur kvintettinn nú í bráðum 25 ár stytt kirkjugestum í Hallgrímssókn biðina eftir jólunum og leikið tónlist við hæfi milli kl. 17 og 18 á aðfangadag. Dæmi um það má heyra á hljómplötunni Jól í Hallgrímskirkju.
Á vegum verkefnisins "Tónlist fyrir alla" hefur Hljómskálakvintettinn leikið fyrir þúsundir grunn- og framhaldsskólanema á hátt í 200 tónleikum á Suðurnesjum, Suðurlandi, Vesturlandi, í Reykjavík og Kópavogi. Í Reykjavík hefur kvintettinn haldið tónleika í Hallgrímskirkju, Háteigskirkju, Neskirkju og Langholtskirkju.
Á fimmtán ára afmæli Norðurlandahússins í Færeyjum 1998 var kvintettinum boðið til tónleikahalds í Þórshöfn og á 20 ára afmæli hópsins voru tónleikar í Listasafni Íslands þar sem komu fram auk kvintettsins 12 málmblásarar af höfuðborgarsvæðinu (flestir meðlimir SinfóníuhljómsveitarÍslands).
Á jólum 2006 gaf Hljómskálakvintettinn út hljómplötuna Jólin alls staðar sem hljóðrituð var í Kristkirkju, Landakoti.
Þess má geta að félagar úr kvintettinum blésu í lúðra sína um víðan völl undir stjórn Ásgeirs H. Steingrímssonar á seinni degi Kristnitökuhátíðar áÞingvöllum 2. júlí 2000. Á jólum 2006 gaf Hljómskálakvintettinn út hljómplötuna Jólin alls staðar sem hljóðrituð var í Kristkirkju,Landakoti.

 

 

Jóhann Sigurðarson lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands 1981 og var fastráðinn um nokkurra ára skeið hjá Leikfélagi Reykjavíkur þar sem hann lék mörg burðarhlutverk, til að mynda titilhlutverkið í Jóa, Arnald í Sölku Völku, Leslie í Gísl og Kjartan í Guðrúnu. Jóhann réðst til starfa við Þjóðleikhúsið 1986 og hefur meðal annars leikið hér Valère í Aurasálinni, Haffa í Bílaverkstæði Badda, Niels Fuhrmann í Haustbrúði, Guðmund í Ég heiti Ísbjörg Ég er ljón, Harald í Hafinu, indíánann Bromden í Gaukshreiðrinu, Trígorín í Máfinum, titilhlutverkið í Don Juan, Einar í Þreki og tárum, Stóra-Kláus í Litla-Kláusi og Stóra-Kláusi, Aðalstein í Grandavegi 7, Litla-Jens í Meiri gauragangi, Erik Larsen í Abel Snorko býr einn og Mr. Hall í Halldór í Hollywood. Jóhann var útnefndur til Grímuverðlaunanna fyrir hlutverk sitt í “Svartri mjólk”. Jóhann hefur ennfremur farið með aðalhlutverk í nokkrum söngleikjum, hlutverk Javerts lögreglustjóra í Vesalingunum, kapteins von Trapp í Söngvaseiði, prófessors Henrys Higgins í My Fair Lady og Tevye mjólkurpósts í Fiðlaranum á þakinu. Hann lék bæjarstjórann í óperunni Valdi örlaganna og söng hlutverk Don Basilio í uppfærslu Íslensku óperunnar á Rakaranum í Sevilla. Einnig fór hann með hlutverk Lennys í uppsetningu Loftkastalans á Músum og mönnum. Meðal kvikmynda sem Jóhann hefur leikið í eru Óðal feðranna, Eins og skepnan deyr, Húsið, Tár úr steini, Benjamín dúfa, Perlur og svín og 101 Reykjavík. Jóhann er fastráðinn við Þjóðleikhúsið.

 


Jónína Erna Arnardóttir hlaut fyrstu menntun sína í píanóleik við Tónlistarskóla Borgarfjarðar, en útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1990 með burtfarar-og kennarapróf. Aðalkennari hennar var Anna Þorgrímsdóttir.
Einnig stundaði hún framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Bergen frá 1991-1995 og lauk þar lokaprófi í kammermúsik og píanóleik. Aðalkennari hennar þar var Jiri Hlinka.
Framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholti árið 1990.
Jónína hefur starfað við tónlistarkennslu nær óslitið frá 1987 og starfar nú sem deildarstjóri píanódeildar í tónlistarskóla Borgarfjarðar auk þess að sinna undirleik við söngdeild skólans.
Hefur sungið með Kammerkór Vesturlands og Systarkvartettinum.
Hefur stjórnað Samkór Mýramanna frá 1997 og vinna þau m.a. nú að upptökum á geisladisk.
Lék ásamt Hannesi Þ. Guðrúnarsyni íslenska og norska tónlist á tónleikum í Bergen, Gjövik, Oslo og Kaupmannahöfn, lýðveldishátíðarárið 1994.
Hefur komið fram í norska sjónvarpinu í tengslum við Íslandskynningu í Bergen, þar sem hún hlaut einnig styrk frá Fondet til fremje av nordisk kulturliv, samfunnsliv og næringsliv for islandsk og norsk ungdom.
Lék á tónleikum í Reykholti og sumartónleikum í Stykkishólmi ásamt Dagrúnu Hjartardóttur söngkonu árið 1997
Lék á tónleikum tónlistarfélags Borgarfjarðar haustið 2003 ásamt Zsuzsönnu Budai píanóleikara.
Hefur staðið fyrir tónleikum við upphaf Borgfirðingahátíðar sl. 4 ár, með ýmsum listamönnum.
Hefur leikið við ýmis tækifæri í héraðinu, t.d. nýlega við opnum sýningar á munum Barónsins á Hvítárvöllum í Safnahúsi Borgarfjarðar ásamt Örnólfi Kristjánssyni sellóleikara.

 

 

Kjartan Ragnarsson er fæddur 18. september 1945 í Reykjavík. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur árið 1966 og var síðan í framhaldsnámi í leiklist í Póllandi 1969 til 1970. Kjartan var leikari og leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur frá 1966 og hefur verið fastráðinn hjá sömu stofnun frá 1974. hann hefur einnig leikstýrt mikið hjá Þjóðleikhúsinu og Nemendaleikhúsinu.

Kjartan fór fljótlega að skrifa leikrit og hefur hann leikstýrt flestum verkum sínum sjálfur. Meðal leikrita eftir Kjartan má nefna Saumastofuna, Blessað barnalán, Týndu teskeiðina og Nönnu systur sem hann samdi í samvinnu við Einar Kárason. Kjartan samdi einnig leikritin Peysufatadaginn og Dampskipið Ísland fyrir Nemendaleikhúsið. Kjartan hefur gert fjölmargar leikgerðir eftir bókum, s.s. Ofvitann eftir Þórberg Þórðarson, Ljós heimsins og Höll Sumarlandsins eftir Halldór Laxness, Djöflaeyjuna eftir Einar Kárason og Evu Lunu eftir chileönsku skáldkonuna Isabel Allende. Í samvinnu við Sigríði Margréti Guðmundsdóttir gerði Kjartan einnig leikgerðirnar að Grandavegi 7 eftir Vigdísi Grímsdóttur og Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness en sú leikgerð var sýnd í tveimur hlutum undir heitunum Bjartur og Ásta Sóllilja.

Kjartan hefur unnið mikið á Norðurlöndunum og leikstýrði m.a. Kirsuberjagarðinum, Stræti, Mávinum og Þremur systrum hjá nemendaleikhúsi Leiklistarskólans í Malmö, Platonov hjá Borgaleikhúsinu í Malmö og Grandavegi 7 við Borgarleikhúsið í Gautaborg. Ennfremur leikstýrði hann leikritinu Ég er meistarinn eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur í Gdansk í Póllandi.

Kjartan er búsettur í Borgarnesi og veitir Landnámssetrinu forstöðu.

Kammerkór Vesturlands var stofnaður sumarið 1999 með það fyrir augum að gefa tónlistarmenntuðu fólki í Borgarfirði tækifæri á að glíma við metnaðarfull og krefjandi verkefni á sviði sönglistar. Flestir meðlimir kórsins eru á efri stigum söngs eða hafa lokið 8. stigi í söng og því getur kórinn státað sig af fullgildum einsöngvurum úr röðum kórfélaga. Kórinn hefur þegar komið fram við ýmis tækifæri og flutt fjölbreytt efni, þ.á.m.íslensk ættjarðarlög, frægustu verk kirkjutónlistarinnar og haldið skemmtanir með kór-einsöngs-og tvísöngsverkum. Kórinn er nýkominn heim úr velheppnaðri söngferð til Ljubljana , þar sem biskupinn yfir Lúthersku kirkjunni í Slóveníu tók á móti kórnum. Dagrún Hjartardóttir hefur verið stjórnandi kórsins frá stofnun hans.