Tónlistarmaðurinn Gunnar Ringsted.
Gunnar hóf tónlistarferil sinn með hljómsveitinni Spacemen
sem stofnuð var upp úr Bravó árið 1966, þá aðeins þrettán ára gamall.
Síðan fylgdu í kjölfarið ýmsar hljómsveitir sem hann lék með,
þar á meðal Flakkarar, Óvissa, Ljósbrá og einnig Reykjavíkursveitirnar Náttúra og Roof Tops.
Fyrstu skólun sína í jassinum hlaut Gunnar hjá þeim Eydal bræðrum
Ingimari og Finni er hann var kallaður til í ýmiskonar jassverkefni
s.s. tónleika og einnig hljóðritanir fyrir útvarp. Hann spilaði einnig með hljómsveit Ingimars Eydal á tímabili.
Tónlistarnám sitt hóf hann við Tónlistarskóla Akureyrar en fluttist síðar yfir í Tónlistarskóla Reykjavíkur áður en hann hóf nám í tónlistarskóla FÍH, þar var hann í jass-deild en gítarkennari hans var þá Björn Thoroddsen. Seinna nam hann jassgítarleik hjá Jóni Páli Bjarnasyni. Gunnar dvaldi fjögur ár í Danmörku og nam þá jöfnum höndum jassgítarleik hjá Bjarne Roupé og tónlistarfræði við Kaupmannahafnarháskóla.
Hann lék með ýmsum jasstónlistarmönnum á meðan hann stundaði
tónlistarnám í Danmörku, þar á meðal var trommuleikarinn Alex Riel og bassaleikarinn Mads Vinding en þeir eru í fremstu röð þarlendra jasshljóðfæraleikara. Gítarkennari Gunnars í Danmörku var Bjarne Roupé en hann hefur spilað á jasshátíð í Reykjavík. Á Danmerkurárunum spilaði hann einnig með hljómsveit Hauks Mortens sem þá starfaði tímabundið í Danmörku.
Síðustu ár hefur Gunnar spilað jass með ýmsum jasssveitum bæði á Akureyri og í Reykjavík og einnig í Borgarfirðinum. Meðal annarra hafa meðspilarar hans verið Björn Thoroddsen, Jón Rafnsson, Benedikt Brynleifsson, Kristian Blak, Dan Cassidy, Kristján Guðmundsson, Richard Korn og Gunnar Gunnarsson svo einhverjir séu nefndir.
Gunnar hefur starfað sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Borgarfjarðar frá árinu 1978 til dagsins í dag ef frá eru skilin 4 ár í Danmörku og lengst af í fullu starfi.
Hann kenndi einnig við Tónlistarskólann á Akranesi í tvö ár eftir heimkomuna frá Danmörku og hefur verið þar í hlutastarfi á vorönn 2010.
Hann spilar um þessar mundir í hljómsveitinni Bravó sem var upphaflega stofnuð 1964 en endurvakin sumarið 2009. Nýjasta hljómsveitin sem Gunnar spilar með í er Bandið Bakvið Eyrað (BBE) en þau hafa spilað mikið í Landnámssetrinu í Borgarnesi og víðar við góðan orðstír.